Bandaríska ríkisstjórnin mun bjóða bílarisunum þremur, GM, Ford og Chrysler allt að 17,4 milljarða dala neyðarlán en búist er við því að GM og Chrysler muni þiggja lánið eins fljótt og auðið er.

Þetta hefur Reuters fréttastofan eftir hátt settum embættismanni í Hvíta húsinu.

Í frétt Reuters kemur fram að um 13,4 milljarðar dala verða til taks strax upp úr áramótum en það fjármagn verður tekið úr 700 milljarða dala björgunarsjóðnum sem var ætlaður til bjargar banka- og fjármálakerfisins.

Öldungadeild bandaríkjaþings hafði í síðustu viku hafnað 14 milljarða dala lánveitingu til bílarisanna en fulltrúardeildin hafði áður samþykkt að veita þeim lán.

Nú er þingið hins vegar í jólafríi og því hefur verið þrýstingur á Hvíta húsið að hafa framgöngu um að veita lánið.

Samkvæmt frétt Reuters munu lánin verða veitt til þriggja ára.