George W. Bush Bandaríkjaforseti sagði í gær að „öll úrræði væru uppi á borðinu“ til að reyna að fá Írana til að hætta öllum kjarnorkuáætlunum sínum.

Á sameiginlegum fréttamannafundi með Angelu Merkel, kansla Þýskalands, sagði Bush að hans fyrsti valkostur væri að leysa kjarnorkudeiluna með diplómatískum hætti.

Merkel sagði að þau Bush hefðu rætt um að beita írönsk stjórnvöld frekari refsiaðgerðum yrðu þau ekki við kröfum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Bush útilokaði hins vegar ekki þann möguleika að Ísrael og/eða Bandaríkin gerðu loftárásir á írönsk skotmörk áður en kjörtímabili hans lyki í lok þessa árs.

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti gaf lítið fyrir hótanir Bush og sagði að hann gæti ekki svo mikið sem skaðað „einn sentimetra“ af landsvæði Írans.