George Bush, forseti Bandaríkjanna, setti þrýsting á bandaríska þingið í dag um að liðka fyrir á námslánamarkaðnum með lagasetningu. Námslánamarkaðurinn er metinn á 85 milljarða dollara í Bandaríkjunum, en lausafjárþurrð hefur gert vart við sig þar líkt og annars staðar.

Fjöldi aðila sem hafa hingað til veitt ríkisstyrkt námslán hafa nú horfið frá slíkum útlánum, og þeir sem hafa haldið starfseminni áfram hafa átt í vandræðum með að selja skuldabréfavafninga með námslánum. Slíkar sölur hafa hingað til verið ein helsta fjármögnunin fyrir nýjum lánum. Nú þegar hefur neðri deild þingsins samþykkt frumvarp þess efnis að menntamálaráðuneytið vestanhafs fái tímabundnar heimildir til að kaupa þessa vafninga.

„Þó hægist um í efnahagslífinu ætti það ekki að minnka tækifæri til menntunar," sagði Bush í vikulegu ávarpi sínu. „Þess vegna erum við að grípa til aðgerða svo aðgangur að menntun sé ennþá greiður fyrir alla námsmenn," sagði hann.