Austur-Evrópubúar eru hamingjusamari og heilbrigðari nú en þeir voru á tímum kommúnismans. Í nýjum könnunum kemur fram að Slóvakar, Tékkar og Pólverjar lifa lengur en þeir gerðu á níunda áratugnum auk þess sem þeir eru almennt séð ánægðari.

Lífslíkur í Slóvakíu eru komnar yfir sjötíu ár en voru 67 ár á tímum kommúnismans. Skýringar á þessu má ef til vill finna í þeirri staðreynd að þeir drekka núna um helmingi minna áfengi en þeir gerðu þegar járntjaldið féll.

Það sama er uppi á teningnum í Póllandi og Tékklandi. Pólverjar lifa að jafnaði fjórum árum lengur en þeir gerðu á meðan kommúnistar héldu um valdataumana, eða um 75 ár. Þeir lifa einnig heilbrigðari lífi. Til að mynda hefur reykingamönnum fækkað um helming. Ríflega áttatíu prósent Tékka segjast vera sáttir við lífið og tilveruna. Mataræði þeirra hefur batnað og leggja þér sér mun minni fitu til munns en áður og hefur bætiefnaneysla þeirra aukist.

Fram kemur í þýska tímaritinu Der Spiegel að aukin lífsgæði megi rekja til hagvaxtar undanfarinna ára. Hinsvegar er víða pottur brotinn í heilsufari þessara þjóða. Offita er til að mynda vandamál og í nýlegri samanburðarrannsókn á fjölda offitusjúklinga í Evrópu kom meðal annars fram að Tékkar og Slóvakar eru í fjórða og sjöunda sæti. Offituvandinn er hinsvegar mestur í Þýskalandi.