Greining Íslandsbanka telur líklegt að hagvöxtur verði 2,5 prósent á þessu ári og 2,2 prósent á næsta ári. Þetta er minni hagvöxtur en Seðlabankinn reiknar með. Í síðustu Peningamálum Seðlabankans er hagvaxtarspáin þvert á móti uppfærð úr 2,3 prósent á þessu ári í 2,8 prósent.

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, kynnti þjóðhagsspá greiningar bankans á Fjármálaþingi Íslandsbanka í dag.

Samkvæmt þjóðhagsspánni er gert ráð fyrir að einkaneyslan muni halda áfram að aukast á næsta ári en ögn hægar en á þessu ári. Þá muni aðgengi að séreignarsparnaði auk eftirgjafar á skuldum heimilanna ekki leggja eins mikið til vaxtar og upp á síðkastið. Reyndar er gert ráð fyrir að kaupmáttur launa muni vaxa enn og störfum fjölga. Það muni svo auka ráðstöfunartekjur heimilanna.

Greiningin telur að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum sínum óbreyttum um sinn sökum aðstæðna og að gjaldeyrishöft muni áfram tryggja stöðugleika krónunnar. Þá muni verðbólga hjaðna á næsta ári. Stýrivextir verði ekki hækkaði á ný fyrr en verðbólga fari upp á ný.