Á næstu mánuðum mun kaffihúsið vinsæla, Reykjavík Roasters, víkka út starfsemi sína og opna nýtt útibú við Brautarholt 2 í Reykjavík.

Kaffihúsið, sem opnaði undir nafninu Kaffismiðja Íslands árið 2008, hefur verið til húsa við Kárastíg 1 og breytti nafninu í Reykjavík Roasters á síðasta ári. Fjórir eigendur standa að baki Reykjavík Roasters, þau Ingibjörg Jóna Sigurðardóttir, Torfi Þór Torfason, Þuríður Sverrisdóttir og Tumi Ferrer.

Spurð að því hvort nýjar áherslur fylgi nýrri staðsetningu segir Ingibjörg Jóna að kjarnastarfsemin muni áfram halda sér. „Aðaláherslan er gott kaffi. Það er alltaf númer eitt, tvö og þrjú. Á Kárastígnum erum við með frekar lágstemmdan matseðil, eiginlega fyrst og fremst morgunmat og kannski smá eftirmiðdegissnarl. Með nýja staðnum stefnum við á að taka úrvalið aðeins á næsta stig. Þá ætlum við að reyna að vera með aðeins meiri hádegismat án þess þó að breyta staðnum í matsölustað. Þetta verður kaffihús með aðeins bústnari matseðil,“ segir Ingibjörg.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .