Kársneshverfið í Kópavogi hefur gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum árum, eða allt frá árinu 2012 er núverandi aðalskipulag Kópavogsbæjar fyrir tímabilið 2012-2024 tók gildi. Töluverður fjöldi nýrra íbúða hefur verið byggður, eða er enn í byggingu, á svæðinu og nú nýlega opnaði baðlónið Sky Lagoon, sem staðsett er vestast á Kársnesinu, dyr sínar fyrir almenningi.

Af þeim sem gert hafa sér ferð í lónið og blaðamaður hefur rætt við, hafa margir haft orð á því að Kársnesið minni á bútasaumsteppi. Enda keyrir fólk fyrst í gegnum rótgróna íbúðabyggð, svo taka við húsakynni Landsréttar og ný íbúðabyggð, næst blasir við iðnaðarhverfi og loks er komið niður að hafnarsvæðinu þar sem m.a. má finna eitt glæsilegasta baðlón landsins.

Vestast á Kársnesinu var lengi vel staðsett iðnaðar- og hafnarsvæði en í aðalskipulaginu var skilgreindu hafnarsvæði á Kársnesi breytt í þróunarsvæði, en áfram gert ráð fyrir smábátahöfn og atvinnustarfsemi á svæðinu. Í stað hafnarsvæðis var gert ráð fyrir blandaðri byggð, þá aðallega íbúðabyggð, en einnig fyrir verslun og þjónustu, ásamt atvinnuhúsnæði.

„Maður hefur oft heyrt talað um bútasaum í skipulagi en það sem einmitt einkennir flott bútasaumsteppi er að það myndar eina heild. Mér finnst þær breytingar sem þegar hefur verið ráðist í hafa heppnast mjög vel og ég er mjög spenntur fyrir framhaldinu," segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, og bendir í því samhengi á þá möguleika sem hin svokallaða Fossvogsbrú mun bjóða upp á.

Umrædd brú er ætluð fyrir gangandi, hjólandi og umferð almenningssamgangna yfir Fossvog, frá flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar vestan Nauthólsvíkur yfir á norðausturhluta Kársnestáar. Bygging brúarinnar er samstarfsverkefni Kópavogsbæjar, Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Ármann segir að vonir standi til um að brúin verði komin í gagnið árið 2024.

Þekkir Kársnesið eins og lófann á sér

Í deiliskipulagslýsingu um þróunarsvæðið vestast á Kársnesi frá því í október árið 2016 er saga svæðisins rakin. Þar segir að hafnargerð í Kópavogi hafi hafist á Kársnesi árið 1952. Á næstu árum hafi verið byggður lítill bryggjusporður fyrir bæði fiskiskip og farskip. Ekki hafi þó orðið af frekari framkvæmdum við höfnina um árabil, eða allt til 1982 er farið var að veita fé til hafnargerðar. Á árinu 1989 hafi verið lokið við gerð mikils grjótgarðs og fullkomin flotbryggja fyrir um 40 litla báta tekin í notkun. Frá þeim tíma hafi svo verið lagt fram deiliskipulag um breytingu á hafnsækinni starfsemi. Árið 2006 hafi málið svo verið tekið upp aftur og rammaskipulag kynnt þar sem gert var ráð fyrir um 1.200 íbúðum auk athafnasvæðis og hafskipahafnar, viðlöguköntum og hafnsækinni starfsemi. Árið 2008 hafi hins vegar verið lagt fram endurskoðað rammaskipulag þar sem íbúðum var fækkað og hafskipahöfn lögð af.

„Fyrir árið 2012 var svæðið á og við höfnina meira og minna allt atvinnusvæði. En í núgildandi aðalskipulagi var hafnarsvæðið minnkað og það fremur hugsað sem smábátahöfn," segir Ármann, sem hefur verið bæjarstjóri Kópavogsbæjar frá árinu 2012. Hann hefur þó komið að skipulagsmálum í bæjarfélaginu um lengra skeið. „Ég var formaður skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 1998-2002 og þá vorum við þegar farin að horfa í þessa átt." Þá þekkir bæjarstjórinn Kársnessvæðið sérlega vel, enda hefur hann að mestu búið á Kársnesinu frá því að hann flutti í Kópavog á sínum tíma. „Ég hef komið auga á þau fjölmörgu tækifæri sem Kársnesið býr yfir eftir að hafa búið þarna lengi."

Ármann segir þó vandmeðfarið að breyta og stækka Kársnesið á þann hátt sem gert er ráð fyrir í aðalskipulagi og unnið hafi verið að undanfarin níu ár. „Það hefur lengi ríkt svolítil sveitastemning á Kársnesinu og því eru einhverjir íbúar missáttir með þessar breytingar. Við höfum þó að mestu fundið fyrir mjög jákvæðum viðbrögðum við þessari breyttu ásýnd hverfisins frá íbúum Kársnessins sem hafa mætt á íbúafundi. Þar hefur mér sérstaklega þótt unga fólkið í hverfinu sjá tækifærin sem Borgarlínan og Fossvogsbrúin hafa í för með sér."

Ármann segir að það sé orðið mjög eftirsóknarvert að búa á Kársnesinu og og birtist það meðal annars í þróun hækkandi fasteignaverðs á svæðinu.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .