„Við gerum ekki ráð fyrir að truflunin verði jafnmikil og í fyrra,“ segir Michael O'Leary, forstjóri Ryanair í samtali við BBC um eldgosið í Grímsvötnum og vísar til eldgossins í Eyjafjallajökli sem stöðvaði nær allt flug í Evrópu í heila viku. Enn er óvíst hver áhrif gossins í Grímsvötnum verða á flug en sænskir fjölmiðlar hafa í dag eftir Reyni Böðvarssyni, jarðfræðingi í Uppsölum, að áhrifin gætu orðið enn meiri en fyrir ári síðan.

O'Leary segir það ósanngjarnt að flugfélögin þurfi að bæta farþegum sínum kostnað sem orsakist af náttúruhamförum. „Mér finnst ekki að flugfélög eigi að vera tryggjandi til þrautavara,“ segir hann.

Ryanair birti í morgun afkomu síðasta bókhaldsárs og nam hagnaður ársins 374 milljónum evra, sem er 23% hækkun frá árinu þar á undan.