Búvörulögin eru gölluð að því leyti að þau gera ekki ráð fyrir að aðrir en styrkþegar úr ríkissjóði reki mjólkurframleiðslu í landinu. Það er afstaða Mjólku að þau höft, sem kunna að felast í búvörulögunum og er ætlað að hindra frjálsa framleiðslu og sölu á mjólkurafurðum á Íslandi, séu ólög sem fari í bága við atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Mjólku, hefur sent frá sér

Þar kemur einnig fram að það sé ljóst að engin rök eru fyrir því að takmarka framleiðslu og sölu mjólkurafurða, enda ekki um að ræða takmarkaða auðlind sem þarf að vernda og stjórna af hinu opinbera í verndarskyni.

"Nægt magn er til af mjólk og þar af leiðandi eru öll höft og bönn á mjólkurframleiðslu sett í þágu styrkþega úr opinberum sjóðum. Meðal annars stenst slíkt auðvitað ekki jafnræðissjónarmið. Ef hið opinbera sér skynsemi og rök fyrir því að hafa stóran hluta vinnufærra manna á opinberri framfærslu, í gegnum lögbundið styrkjakerfi eins og starfrækt er í landbúnaði, verður að gæta þess að það hafi ekki í för með sér óhæfilega skerðingu á atvinnufrelsi þeirra sem kjósa að standa utan við styrkjakerfið.
Ef Bændasamtökin telja að Mjólka hafist eitthvað að sem fer í bága við búvörulögin er auðvitað kostur að setja þann ágreining fyrir dómstóla og fá úr því skorið hvaða takmörk búvörulögin setja öðrum en styrkþegum sem vilja stunda mjólkurframleiðslu," segir í yfirlýsingunni en hún er send vegna þeirrar fullyrðingar Bændasamtaka Íslands að ólöglegt sé að selja mjólk innanlands sem framleidd sé umfram greiðslumark, án leyfis framkvæmdanefndar búvörusamninga. Þetta fullyrðing Bændasamtakanna fær ekki staðist.