Félag atvinnurekenda telur að Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi landbúnaðarráðherra og núverandi forsætisráðherra, hafi farið gróflega út fyrir þær valdheimildir sem Alþingi hafði veitt honum í búvörulögum er hann undirritaði búvörusamninga við Bændasamtök Íslands í febrúar síðastliðnum. FA hvetur Alþingi til að hafna frumvarpi um samningana.

í í tilkynningu frá Ólafi Stephensen kemur fram að FA hafi skilað inn umsögn til atvinnuveganefndar Alþingis og fjallað þar sérstaklega um samninginn um starfsskilyrði nautgriparæktar. Segir hann að í samningnum sé vísað til þess að hann sé byggður á heimild í 30. grein núverandi búvörulaga. Sú heimild sé hins vegar þröng og veiti ráðherra enga heimild til að semja um margt af því sem samið var um við Bændasamtökin.

„Að mati FA er það stórvarasamt fordæmi ef Alþingi ætlar að leggja blessun sína yfir að ráðherrar geri samninga sem þeir hafa enga lagaheimild til og sæki heimildina til Alþingis eftir á. Þessi ráðagerð er í andstöðu við ákvæði 2. gr. stjórnarskrár um þrískiptingu valds sem og þingræðisreglu íslenskrar stjórnskipunar enda er það löggjafinn sem kveður á um valdheimildir ráðherra en ekki hann sjálfur,“ segir í umsögn FA.

Umsögn FA er viðamikil og er þar fjallað um ýmsa þætti búvörusamninganna og íslenskrar landbúnaðarstefnu.