Veffyrirtækið Buzzfeed náði ekki veltumarkmiðum sínum fyrir árið 2015 sem sumum finnst varpa skugga á himinhátt matsverð fjárfesta á virði fyrirtækisins. Financial Times fjallaði um afkomu félagsins.

Áætlanir fyrirtækisins fyrir rekstrarárið 2016 hafa verið leiðréttar í ljósi niðurstaðna síðasta árs - þar sem velta félagsins nam 170 milljónum dala, meðan áætlanir höfðu gert ráð fyrir 250 milljóna veltu. Því hefur spá fyrirtækisins um árið 2016 verið helminguð úr 500 milljónum dala í 250 á ný.

Félagið hefur verið metið á hátt verð af fjárfestum. Til dæmis hefur fjárfestingarfélagið a16z sem er í eigu Marc Andreessen og Ben Horowitz keypt 80 milljón dala hlut í félaginu sem er nú metið á um 1,5 milljarða Bandaríkjadala. Heimildir FT hafa spurt sig hvort slíkt verðmat eigi rétt á sér, þar eð viðskiptamódelið sé erfitt til stækkunar.