Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, býður þeim sem er tilbúinn til að gangast við því að hafa skrifað Staksteina í Morgunblaðinu í gær að ganga til liðs við sig í góðgerðastarfsemi. Í Staksteinum sagði að meirihlutinn í borginni sem standi fyrir upplýsingafrelsi standi nú gegn því að afgreiða tillögu sjálfstæðismanna um að upplýsa almenning um framleiðslu virkjana Orkuveitu Reykjavíkur eins og um annan fyrirtækjarekstur í almannaeigu. Fulltrúar flokksins hafi talað fyrir því að opna bókhaldið og aðrar upplýsingar borgarinnar. Kjósendur Pírata ættu hins vegar ekki að gera ráð fyrir því að fulltrúar þeirra muni rugga bátnum enda þeim greitt með vel launuðu gæluverkefni fyrir þögnina.

Halldór skrifar á Facebook-síðu sína að hann hafi verið að velta þessum skrifum fyrir sér.

Hann skrifar:

„Nú er ég sannarlega ekki dýr í rekstri og hef aldrei þurft að hafa teljandi áhyggjur af peningum. Þess vegna er frekar hjákátlegt og meiðandi í senn að sjá gefið í skyn að gildi mín séu föl fyrir fé. Ég til dæmis þáði ekki skuldaleiðréttinguna svonefndu, þó ég hafi átt rétt á henni, af því mér hugnast ekki starfshættir þeirra sem gefa hana og vil ekki finnast ég skulda þeim nokkuð. Nú gef ég mér að svipað gildi um þann sem skrifaði þessa Staksteina, hver svo sem viðkomandi er nú. Ég er þess vegna með tilboð sem gerir okkur kleift að vera stórkallalegir saman og slá þessum erjum upp í eitthvað sem gagnast fólki en sýnir um leið að peningar skipta okkur takmörkuðu máli. Ef þessi aðili er tilbúinn að gangast við því að hafa skrifað Staksteina dagsins og heita því að gefa 100.000 kr. til góðgerðamála um hver mánaðamót næstu 12 mánuði mun ég gera slíkt hið sama á móti. Þetta tilboð hefur engan fyrningartíma; viðkomandi getur hvenær sem er fallist á þetta og þá hefjum við leikinn strax næstu mánaðamót frá þeim degi.