Nokkur fjöldi tryggingafyrirtækja hefur sýnt áhuga á að kaupa fasteignasafn auðjöfursins Vincent Tchenguiz. Þar á meðal er bandaríski trygginga- og fjárfestingarisinn AIG, MetLife og Purdential. Verðmæti fasteignanna, sem eru í Bretlandi, er talið nema um þremur milljörðum punda, jafnvirði rúmra 600 milljarða íslenskra króna.

Vincent og bróðir hans Robert voru viðskiptavinir Kaupþings í Bretlandi og helstu lántakendur bankans. Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar handtók þá við húsleit á heimilum þeirra og skrifstofum á síðasta ári í tengslum við rannsókn á viðskiptum þeirra við Kaupþing fyrir hrun.

Vincent hélt sakleysi sínu til streitu og sagði að lögreglan hefði haft hann fyrir rangri sök. Efnahagsbrotadeildin felldi rannsóknina niður í sumar og hefur Vincent gert kröfu um 100 milljóna punda skaðabætur vegna þessa.