*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Fólk 14. janúar 2012 23:27

Býður sig fram til 2. varaformanns Sjálfstæðisflokksins

Kosið verður í fyrsta sinn í embætti 2. varaformanns Sjálfstæðisflokksins á flokksráðsfundi í mars.

Ritstjórn

Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri og formaður bæjarráðs í Fjarðabyggð, hefur lýst yfir framboði til embættis 2. varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Jens Garðari en kosið verður til embættisins á flokksráðsfundi í mars nk.

„Ástæða þess að ég býð mig fram til 2. varaformanns er að ég trúi því einlæglega að með því að velja sveitarstjórnarmann til forystu í Sjálfstæðisflokknum þá muni forysta flokksins breikka og betri tengsl skapast við grasrótina,“ segir Jens Garðar í tilkynningunni.

Jens Garðar hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var formaður Hávarrs, félags ungra sjálfstæðismanna á Eskifirði og formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri 1995 – 1996. Hann sat í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna fyrir Austurland og síðan Norð – Austurkjördæmi frá 1995 – 2005. Þá hefur Jens Garðar setið á framboðslistum á Austurlandi og síðan Norð – Austurkjördæmi síðan 1995. Hann hefur átt sæti í bæjarstjórn Fjarðabyggðar frá 2006 og verið oddviti Sjálfstæðismanna síðan 2010 – „en þá vann Sjálfstæðisflokkurinn í Fjarðabyggð sinn stærsta sigur frá upphafi og felldi meirihluta vinstri manna í Neskaupstað sem setið hafði samfellt síðan 1946,“ segir í tilkynningunni.

Jens Garðar situr einnig í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og hefur gegnt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Þá hefur hann setið í ýmsum ráðum og nefndum á vegum Sambands Sveitarfélaga á Austurlandi.

Jens Garðar er sem fyrr segir oddviti Sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð og framkvæmdastjóri útflutningsfyrirtækisins Fiskimiða ehf. á Eskifirði. Hann er fæddur og uppalinn Eskfirðingur, sonur hjónanna Helga Garðarssonar, rafvirkja, og Herdísar Hallbjörnsdóttur, húsmóður. Jens Garðar á þrjú börn og er í sambúð með Kristínu Lilju Eyglóardóttur, sem nú stundar sérfræðinám í heilaskurðlækningum í Svíþjóð.

Jens Garðar Helgason.