Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. betur þekkt sem BYGG hagnaðist um rúmlega 1,5 milljarða árið 2018 samanborið við rúmlega 1,3 árið 2017, það gerir um 13,7% hækkun á milli ára.

Bæði tekjur og gjöld félagsins lækkuðu þó töluvert milli ára en rekstrartekjur félagsins voru 8 milljarðar samanborið við 9,8 milljarða árið áður sem gerir um 17,8% lækkun. Af þeim voru tekjur vegna verkframkvæmda rúmlega 8 milljarðar en restin var vegna eignarleigu. Rekstrargjöld félagsins drógust einnig mikið saman eða frá 8,1 milljarði í 6 milljarða eða um 25,6%, kostnaður vegna verkframkvæmda nam um það bil 5,7 milljarða.

Eignir félagsins í lok árs 2018 numu 20,7 milljörðum króna samanborið við 14,6 milljarða árið áður en þar af hækkuðu veltufjármunir úr 8,9 milljörðum í 15,2 milljarða eða um 70%. Hækkun á verk- og efnisbirgðum og skammtímakröfum skýrir að mestu leiti þessa hækkun.

Eigið fé félagsins nam 5,8 milljörðum króna og hækkaði um 34% úr 4,3 milljörðum. Á sama tíma jukust skuldir og skuldbindingar félagsins úr 10,3 milljörðum í 15 milljarða eða um 45%. Því stendur eiginfjárhlutfall fyrirtækisins í 28% á móts við 29,7% árið áður.

Stjórnarmenn félagsins eru fjögur, þau Gylfi Ómar Héðinsson, Gunnar Þorláksson, Atli Geir Gunnarsson og Svava Árnadóttir. Eigendurnir eru þeir Gylfi Ómar Héðinsson og Gunnar Þorláksson en hvor um sig á 50% hlut. Félagið greiddi 90 milljónir króna í arð árið 2018.