Byggðstofnun tapaði rúmlega 179 milljónum króna í fyrra, samanborið við 10 milljóna hagnað árið á undan, en stofnunin skipuleggur og fjármagnar verkefni sem efla á byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni.

Eignir stofnunarinnar í árslok námu tæplega 13 milljörðum króna, þar af námu útlán um 9,5 milljörðum króna. Skuldir stofnunarinnar námu um 10,8 milljörðum króna og lækkuðu um 288 milljónir króna á milli ára.

Eigin fé hækkaði vegna ríkisstyrks

Eigið fé Byggðastofnunar nam rúmum 2 milljörðum króna í árslok, eða rúmum 16% af niðurstöðum efnahagsreiknings, og hefur hækkað úr rúmum milljarði árið 2006.

Eiginfjárhlutfall stofnunarinnar er 14,15% Til þess að styrkja eiginfjárstöðu Byggðastofnunar, samþykkti Alþingi í lok árs 2007 um 1,2 milljarða króna framlag til stofnunarinnar.

Heildarrekstrargjöld stofnunarinnar í fyrra voru rúmlega 777 milljónir króna að meðtöldum framlögum í afskriftarreikning útlána og niðurfærslu hlutafjár. Rekstrartekjur námu rúmlega 376 milljónum króna, hreinar vaxtatekjur um 221,5 milljónum króna, og rekstrargjöld rúmum 416 milljónum króna.

Í lok tímabilsins störfuðu 20 starfsmenn hjá stofnuninni.