Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur úthlutað 6.141 þorskígildistonna byggðakvóta fiskveiðiársins 2014/2015. Alls er byggðakvóta úthlutað til 31 sveitarfélags og í þeim fengu 48 byggðarlög úthlutun. Þetta kemur fram á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins .

Í tilkynningunni kemur fram að úthlutunin byggi á upplýsingum frá Fiskistofu um samdrátt í botnfiskafla, botnfiskaflamarki og vinnslu botnfisks annars vegar og samdrætti í rækju- og skelvinnslu hins vegar frá fiskveiðiárinu 2004/2005 til fiskveiðiársins 2013/2014.

Hámarksúthlutun til byggðarlags er 300 þorskígildistonn og fá sex byggðarlög það hámark. Lágmarksúthlutun er 15 þorskígildistonn, eigi byggðarlag á annað borð rétt til úthlutunar, og fá átta byggðarlög þá úthlutun.