Gríðarlegt álag er á byggðalínu Landsnets og er hún komin að þolmörkum. Línan er um fjörutíu ára gömul og segir forstjóri Landsnets að brýnt sé að endurnýja línuna, meðal annars með tilliti til loftslagsbreytinga og rafvæðingar framtíðarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti.

Fram hefur komið að vatnshæð í uppistöðulónum sé víða með lægsta móti en til að mynda hefur vatnshæð í Þórisvatni aldrei mælst minni á þessum árstíma. Staðan er önnur í lónum á Norður- og Austurlandi. Orkuflutningur milli landshluta hefur aftur á móti þýtt að byggðalínan hefur verið við öryggismörk í allt sumar. Lítið megi út af bregða til að raforkunotendur verði fyrir truflunum.

„Sú staða sem nú er uppi sýnir hversu brýn uppbygging flutningskerfis raforku er, sérstaklega tenging landshlutanna. Við hjá Landsneti höfum lengi bent á nauðsynlega endurnýjun byggðalínunnar, sem nú er yfir 40 ára gömul, þannig að við getum mætt betur áskorunum framtíðarinnar vegna loftslagsbreytinga og rafvæðingar,“ er haft eftir Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets, í tilkynningu.

Sem stendur er unnið að uppfærslu byggðalínunnar milli Kröflu- og Fljótsdalsvirkjunar til Akureyrar og hins vegar tengingu frá Blöndustöð til Akureyrar auk línu frá Hvalfirði að Blönduvirkjun. Vinna við umhverfismat er hafin ásamt samráðsferli við hagaðila. Í tilkynningu er þess getið að Landsnet vonist til þess að þessi háttur muni skapa aukna sátt um lagninguna og að þegar hafi hafi náðst sátt við alla landeigendur og sveitarfélög á leiðinni.