Ritun Byggðasögu stranda hefur tekið þrjátíu og þrjú ár og skuldir vegna verksins nálgast nú fimmtíu milljónir króna, að því er segir í frétt Bæjarins besta . Þar er haft eftir Guðbrandi Sverrissyni, varaoddvita Kaldrananeshrepps, að vandræðagangur með ritstjóra hafi valdið þessum töfum. Nú hafi þrír ritstjórar komið að rituninni og þeim hafi kannski ekki verið settur nógu ákveðinn rammi um tíma og efnistök.

„Þetta var bara ekki nógu vel unnið af hendi Búnaðarsambands Strandamanna, eða ritstjórnar Búnaðarsambandsins öllu heldur. Ég held að það sé alveg viðurkennt. Þetta fór úr böndunum og var ekki unnið nógu markvisst,“ segir Guðbrandur við BB.is. Verið er að vinna í greiðslu skulda og hugsanlegum verklokum.

Í annarri frétt BB.is segir að Sparisjóður Strandamanna taki á sig hluta af skuldunum, en stór hluti hennar séu vextir. Til stendur að klára ritun og útgáfu Byggðasögu Stranda ef allir aðilar sammælast um aðkomu verkefnisins.

Búnaðarsamband Strandamanna og Sparisjóður strandamanna hafa náð samkomulagi um að skuldir verði greiddar upp þannig að strax komi tíu milljóna króna greiðsla. Aðrar tíu milljónir verði settar á vaxtalaust biðlán en ef bókin kemur út innan þriggja ára veitir sparisjóðurinn fimm milljóna króna styrk sem dregst þá frá biðláninu. Aðrar núverandi skuldir við sparisjóðinn verða þá felldar niður. Ætlast er til að sveitarfélögin, ásamt Búnaðarsambandinu, greiði þessar tíu milljónir sem koma strax til greiðslu. Hinar tíu milljónirnar verða settar á fjögur skuldabréf sem skiptast á milli Árneshrepps, Kaldrananeshrepps, Strandabyggðar og Húnaþings vestra vegna Bæjarhrepps, í hlutfalli við íbúatölu sveitarfélaganna. Allur kostnaður sem til fellur við að koma bókinni í prentun og sölu fellur á sveitarfélögin.

„Bókun sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps um málið hljóðaði upp á að ekki verði tekið á sig neinar fjárskuldbindingar fyrr en efnið verði afhent svo við getum kynnt okkur það og séð hvaða möguleikar eru í framhaldinu,“ segir Guðbrandur í samtali við BB.is, en verið er að skoða hversu mikil vinna er eftir og hvað muni kosta að klára verkið.