„Ef of langt er gengið fram í því að stuðla að ráðstöfunum sem ganga á svig við hagkvæmni hefur það áhrif á lífskjör þeirra sem hafa lífsviðurværi af atvinnugreininni. Jafnframt verður erfitt að meta kostnað og þar með þjóðhagsleg áhrif byggðastefnu sem rekin er í skjóli reglna um auðlindanýtingu," segir í skýrslu starfshóps um hagræn áhrif af breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Þar segir að tilflutningur aflahlutdeilda milli byggðarlaga hafi einatt vakið hörð viðbrögð, ekki síst fyrir þær sakir að á meðan handhafar heimildanna hafa fengið greitt fyrir söluna, hafi byggðirnar veikst. „Á vettvangi stjórnmálanna er því þung undiralda að hefta framsalið og jafnvel banna það líkt og tillögur gera ráð fyrir eftir 15 ár. Í þessari umræðu kristallast þau fórnarskipti sem eru milli hagkvæms rekstrar og byggðasjónarmiða," segir í skýrslunni.

Í þessu samhengi beri að huga vandlega að langtímaáhrifum þess að blanda saman atvinnustefnu og auðlindanýtingu við markmið í byggðamálum. Sé gengið of langt sé dregið úr hagkvæmni og erfitt veðrur að meta þjóðhagslegan kostnað eins og segir í upphafi.