Byggðastofnun neitar að niðurfæra erlend lán til viðskiptavina í samræmi við gengislánadóma Hæstaréttar. Stofnunin telur lánin vera í erlendri mynt en ekki grengistryggð lán í krónum. Ágreiningur um þessi lán er kominn til kasta dómstóla.

Fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar segir fjölmarga viðskiptavinir Byggðastofnunar ósátta vegna þessa, ekki síst í ljósi þess að erlend lán hafi verið endurreiknuð í stórum stíl. Rifjað er upp að í júní síðastliðnum hafi verið tekið fyrir mál í Héraðsdómi Norðurlands vestra þar sem deilt er um hvort lán stofnunarinnar telst vera í erlendri mynt eða vera gengistryggt lán í krónum, form sem Hæstiréttur hefur dæmt ólögleg.

Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður Byggðastofnunar, segist í samtali við fréttastofuna vonast til þess að málið muni eyða óvissu um þessi mál.

Hann bendir hins vegar á að öðru máli gegni um lánveitingar Byggðastofnunar og lán gömlu bankanna sem hafi verið færð niður.

„Stofnunin skuldar enn sömu upphæðir í útlöndum og áður [...] Það er ríkisábyrgð á öllum skuldum stofnunarinnar og því mun lækkun á útlánum óhjákvæmilega lenda á ríkissjóði. Stofnunin hefur enga heimild til þess á niðurfæra kröfurnar, það verður að koma til kasta dómstóla í því."