„Nei, stefnan er að selja alla hluti og þeir eru alltaf til sölu og eru auglýstir þannig á okkar heimasíðu,“ segir Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, aðspurður um hvort það sé stefna stofnunarinnar að vera eigandi fyrirtækja á landsbyggðinni. Byggðastofnun á meðal annars hluti í fimm félögum í hótelrekstri og þremur til viðbótar sem eru vegna  fasteignafélaga hótelbygginga. Hlutirnir hafa verið um árabil í eigu Byggðastofnunar og hefur stofnunin til að mynda átt hlut í  Grand Hóteli Mývatni frá árinu 2002 og Hótel Flúðum frá árinu 2003.

Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar
Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar

Aðalsteinn segir stofnunina reyna að gera virkt átak einu sinni á ári þar sem hlutirnir eru auglýstir til sölu auk þess sem reynt sé að losna við hlutina ef færi gefst.

Virk í stjórnun félaga
Byggðastofnun skipar menn í stjórn þegar hlutur þeirra í félögum leyfir. Aðalsteinn segir að stofnunin gæti hagsmuna sinna og
fylgist með rekstri félaga.

„Við rekum þá stefnu að við séum virkir þar sem hluturinn er af þeirri stærð að því fylgi réttur til að skipa stjórnarmann,“ segir Aðalsteinn. Mörg dæmi eru einnig um að stofnunin finni menn á viðkomandi svæði til að sitja í stjórn félaga í umboði stofnunarinnar að hans sögn. Aðspurður hvort það sé lítill áhugi á umræddum eignum í ljósi þess hve lengi stofnunin hefur verið eigandi þeirra játar Aðalsteinn að svo sé. Hann segir hlutina ekki endilega vera spennandi fjárfestingarkosti og að sumir þeirra séu jafnvel inni í fjölskyldufyrirtækjum. Í sumum tilfellum sé um að ræða litla og jafnvel áhrifalausa hluti sem keyptir voru á grundvelli byggðarsjónarmiða. „Með öðrum orðum þá var það ekki arðsvon sem réði þeirri fjárfestingu á sínum tíma.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.