Byggðastofnun hafnaði kauptilboði Lotnu í Eyrarodda á Flateyri. Ástæðan er viðskiptasaga eigenda Lotnu. Fréttastofa RÚV greinir frá.

Lotna gerði kauptilboð í þrotabú Eyrarodda fyrr í mánuðinum og hóf starfsemi á Flateyri í gær. Byggðastofnun er stærsti kröfuhafi Eyrarodda og var kauptilboð Lotnu rætt á stjórnarfundi Byggðastofnunar sem lauk fyrir stundu. Þar var ákveðið að hafna kauptilboði Lotnu.

Anna Kristín Gunnarsdóttir, stjórnarformaður Byggðastofnunar, sagði í samtali við fréttastofu RÚV að í raun hafi þessi niðurstaða legið fyrir, fyrir fundinn. Hún sagði að starfsmenn Byggðastofnunar hafi farið yfir viðskiptasögu eigenda Lotnu og vegna hennar hafi verið ákveðið að ganga ekki til samninga við þá.

Sagt var frá í fréttum RÚV í gær að slóð gjaldþrota fyrirtækja liggur eftir þá Sigurð Aðalssteinsson og Kristján Sigurð Kristjánsson, eigenda Lotnu. Anna Kristín sagði að nú færi Eyraroddi í opið söluferli sem verður auglýst fljótlega.