Starfshópur skipaður af iðnaðarráðherra til að fjalla um lánastarfsemi Byggastofnunar hefur skilað af sér greinargerð og telur að 3,5 milljarða króna framlag þurfi til að ná 14% eiginfjárhlutfalli. Í greinargerðinni segir að þá sé miðað við að stofnunin fengi 2,5 milljarða króna framlag strax á þessu ári og 1 milljarðs framlag dreifist á fjögurra ára tímabili.

Starfshópinn skipuðu þrír frá Byggðastofnun og tveir frá iðnaðarráðuneytinu. Það voru Guðrún Þorleifsdóttir, lögfræðingur í iðnaðarráðuneytinu, formaður, Egill Tryggvason, viðskiptafræðingur í fjármálaráðuneytinu, Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar og Elín Gróa Karlsdóttir, viðskiptafræðingur hjá Byggðastofnun. Með hópnum starfaði einnig Magnús Helgason forstöðumaður rekstrarsviðs Byggðastofnunar.

Á verðlagi ársins 2009 hefur ríkið lagt Byggðastofnun til alls 10,1 milljarð króna á tímabilinu 1997-2009.

Miklar afskriftir

Kemur fram að stofnunin hefur aukið framlög á afskriftarreikning um 2,8 milljarða króna á árinu 2010. „Ef þetta mat stjórnenda Byggðastofnunar reynist nærri lagi þá verður stofnunin búin að leggja fyrir á afskriftarreikning samtals um 8,2 milljarða króna frá árinu 2008. Útlánasafn stofnunarinnar lækkar við það úr 19,7 milljörðum króna í 12,7 milljarða króna eða um 35%. Útlánasafnið yrði þá orðið nálægt því sem það var um mitt ár 2008 þegar það var um það bil 13 milljarðar króna,“ segir í greinargerðinni.

Krafa samræmist illa hlutverki

Segir að reynslan sýni að krafa um varðveislu eigin fjár samræmist illa lögbundnu hlutverki stofnunarinnar. „Verði niðurstaðan sú að útlánastarfsemi á vegum Byggðastofnunar verði haldið áfram í óbreyttri mynd er rétt að íhuga hvort þessi krafa um varðveislu eigin fjár er raunhæf þegar tekið er mið af hlutverkinu. Ef til vill mætti snúa þessu við og spyrja hvort ekki þyrfti að afmarka hlutverk stofnunarinnar á annan hátt í lögum til að raunhæft sé að ætlast til þess að hún eigi möguleika á að varðveita eigið fé að raungildi.“