Stefán Kristjánsson, sem hefur átt Kaffivagninn við Grandagarð síðan árið 1975, vill selja staðinn eins og greint var frá í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins .

Stefán var talsvert í fréttum fyrir sautján árum vegna sumarbústaðar sem hann og fjölskyldan á í landi Kárastaða við Þingvallavatn. Stefán keypti bústaðinn ásamt 5,6 hektara landi árið 1990. Bústaðurinn var á sínum tíma 60 fermetrar og fékk Stefán leyfi til að byggja við hann. Eftir nokkrar viðbætur fimm árum síðar var bústaðurinn orðinn 130 fermetrar með bátaskýli. Ríkissaksóknari varð æfur og vildi láta rífa húsið. Stefán beitti því hins vegar fyrir sig að samkvæmt rökum ríkissaksóknara gæti þurft að rífa fjölda bústaða við vatnið. Málið endaði fyrir Hæstarétti og vann Stefán það. Húsið stendur enn við Þingvallavatn. Stefán viðurkennir að hann vinni enn of mikið þrátt fyrir að vera kominn nálægt áttræðu og gisti hann sjaldan í húsinu.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.