Þeir virðast hafa haskað sér um of sem komu að framkvæmdum við Tempo-bygginguna  á Benidorm á Spáni. Byrjað var að leggja drög að húsinu árið 2006 og hófust framkvæmdir ári síðar. Háhýsið, sem samanstendur af tveimur tengdum turnum, átti upphaflega að vera upp á 20 hæðir. Ákveðið var síðar að gera þetta að hæstu byggingunni á Spáni og bæta 27 hæðum við.

Fram kemur m.a. á netmiðlinum The Chive að byggingin sé dæmigerð fyrir hamaganginn sem einkenndi fasteignabóluna á Spáni fyrir hrun. Þar á meðal hafi ýmislegt gleymst.

Helsti gallinn - og vonandi sá versti - er sá að lyfta í húsinu nær aðeins upp á 21. hæð og þurfa þeir sem búa í þakhýsinu að bera pokana úr El Corté Ingles upp einar 26 hæðir áður en þeir fá sér síðdegiskokteilinn.

Fleiri myndir má sjá á vef The Chive .