Þónokkur umræða hefur verið í þjóðfélaginu um annars vegar almannarétt og túlkun á honum og hins vegar um að uppbygging verði að vera á ferðamannastöð- um sem tryggi að álagið á landið verði ekki þannig að skaði hljótist af.

Ferðaþjónustufyrirtækið The Cave festi nýlega kaup á landinu sem hellirinn Víðgemlir er á og hófust skipulagðar ferðir niður í hellinn á vegum þess þann 15. maí síðastliðinn.

Hörður Míó Ólafsson er einn þeirra sem að verkefninu standa, en spurður hvort hann teldi vera einhverja lagalega óvissu um hvort þeir hefðu rétt á að vísa fólki frá líkt og kvartað var undan í fjölmiðlum nýlega svaraði hann: „Að mínu viti er enginn vafi á því. Eigum við ekki bara að leyfa þessari umræðu að halda áfram, hún er komin vel á veg og breytingum fylgja alltaf vaxtaverkir.“

Fyrirmyndir sóttar til Bandaríkjanna og Evrópu

Hörður segir að viðtökurnar hafi verið góðar en fyrirmyndirnar sækja þau í uppbyggingu á hellaskoðunum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

„Við erum búin að stórbæta aðgengið, gerðum göngustíg út að hellinum og svo stiga og palla niður af yfirborðinu og niður í hellinn. Þeir eru um 50 metrar að lengd, og svo erum við búin að setja 300 metra göngupall inni í hellinum yfir fyrstu, stærstu skriðuna, sem var erfiðust yfirferðar. Þannig að við erum í rauninni búin að gera fólki kleift að skoða þennan helli á þægilegan máta,“ segir Hörður en það voru foreldrar hans sem keyptu landið.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .