Nefnd breskra stjórnvalda um nauðsyn og staðsetningu á nýrri flugbraut hefur skilað af sér skýrslu þar sem er lagt til að nýrri flugbraut verði bætt við á Heathrow-flugvelli í London. Nefndin hefur metið flugvallarkosti undanfarin þrjú ár, en hún telur „brýna nauðsyn" að auka við getu flugvallarins til að taka við flugum. Heathrow starfar nú á 98% af fullri getu.

„Heathrow hentar ferðalöngum í viðskiptaferðum best, auk þeirra sem sinna fraktflutningum og efnahagnum í heild," er haft eftir formanni nefndarinnar, Howard Davies. Á vefsíðu Heathrow er fullyrt að ný flugbraut geti leitt af sér 180.000 ný störf í Bretlandi fram til ársins 2050.

Í höndum stjórnvalda að ákveða

Nú stendur á ríkisstjórn David Cameron að ákveða hvort farið verið að ráðum nefndarinnar eða ekki, en árið 2009 fullyrti hann að engin flugbraut yrði byggð á Heathrow á meðan hann væri við stjórnvölinn.

Nefndin lagði einnig til lausnir að því hvernig mætti draga úr hávaða og mengun sem myndi hljótast af nýrri flugbraut á Heathrow í því skyni að draga úr efasemdum um ágæti hennar.

Stjórnmálamenn í Bretlandi eru almennt sammála um að reisa þurfi nýja flugbraut í suðausturhluta Englands til að viðhalda smakeppnishæfni, en hugmyndir um að hún verði í vesturhluta London eru mjög umdeildar. Auk Heathrow kom til greina að gera flugbraut á Gatwick, að mati nefndarinnar. Fyrri kosturinn var þó talinn álitlegri.