Heldur er að rofa til á byggingamarkaðnum. Samtök iðnaðarins spá því að á árunum 2015 til 2018 verði byrjað að byggja ríflega 9.400 íbúðir og að á sama tímabili verði lokið við byggingu um 7.200 íbúða. Gangi spáin eftir verður framleiðslan því komin í takt við þörf markaðarins, rétt tæplega þó. Eins og Viðskiptablaðið benti á í frétt fyrir helgi nemur áætlaður kostnaður við byggingu 9.400 íbúða um 280 milljörðum króna.

Tvisvar á ári telja Samtök iðnaðarins þær íbúðir sem eru í byggingu. Í október voru 2.402 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu sem er örlítið minna en á sama tíma í fyrra þegar verið var að byggja 2.436 íbúðir. Ef litið er fimm ár aftur í tímann þá var botninum náð árið 2012 þegar einungis 1.282 íbúðir voru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir brýnt að grípa til samhæfðra aðgerða til að stytta framleiðslutímann, auka sveigjanleika og hafa þannig jákvæð áhrif á framboð íbúða þar sem þörfin er mest.

„Það sem er flókið í þessu er að ná einkageiranum og mismunnandi opinberum aðilum saman," segir Almar. Hann leggur áherslu á að hið opinbera temji sér markmiðshyggju í stað forræðishyggju. Einfalda þurfi regluverkið til muna. Breyta þurfi mannvirkjalögum og byggingarreglugerð til að skapa svigrúm fyrir mismunandi þarfir fólks og auka valfrelsi þess þegar kemur að því að kaupa íbúð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .