Heildarkostnaður við byggingu höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur var um 5.300 milljónir króna á verðlagi hvers árs á árunum 2001 til 2006. Byggingakostnaður fór fram úr þeim áætlunum sem gerðar voru, hvort heldur miðað sé við upphaflega áætlun, síðari áætlanir eða þær upplýsingar sem kynntar voru fjölmiðlum í janúar 2005.

Í skýrslu úttektanefndar um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur sem birt var í dag kemur fram að bygging hússins hafi ekki verið mikið til ummfjöllunar hjá stjórn OR. „Það var ekki fyrr en einstaka stjórnarmenn fóru fram á skýringar á þeim kostnaði við bygginguna, að framkvæmdir við byggingu þess komu á borð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur á ný. Á sama tíma voru fjölmiðlar afar áhugasamir um byggingarkostnaðinn og hefur umfjöllun fjölmiðla um þetta verið að nokkru rakin hér að framan af þeim sökum.“

Um þúsund fermetrar bættust við á byggingartímanum og skýrir að hluta aukinn kostnað.

„Fulltrúar minnihluta í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafa haldið því fram að upphaflega hafi hugmynd um byggingu nýrra höfuðstöðva verið kynnt með þeim hætti að fasteignir veitufyrirtækjanna ætti að selja og verja andvirði þeirra til greiðslu byggingarkostnaðar nýrra höfuðstöðva hins sameinaða fyrirtækis. Eins og rakið var að framan varð sú ekki reyndin, og skeikar þar tæpum 3,5 milljörðum króna, ef miðað er við verðlag hvers árs, eða rúmum 5,1 milljarði á verðlagi ársins 2010. Ekki verður heldur fram hjá því litið að Orkuveita Reykjavíkur hefur í dag ekki þörf fyrir svo mikið húsnæði, enda stendur nú einn hluti húsnæðisins nær auður.“