Með byggingu hótels á Húsafelli er verið að svara kalli hagsmunaaðila í ferðaþjónustu á Íslandi um að byggð séu heilsárs hótel á landsbyggðinni. Þetta segir Þórður Kristleifsson, verkefnissjóti hjá Húsafell Resort. Fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag að félagið hyggist opna 36 herbergja hótel með sex svítum á Húsafelli í sumar. Framkvæmdir eru þegar hafnar.

Húsafell Resort stendur að verkefninu en félagið er í eigu hjónanna Bergþórs Kristleifssonar og Hrefnu Sigmarsdóttur. Stefnt er að því að hótelið opni í júní á næsta ári en það verður byggt á lóð sem er á milli sundlaugarinnar á Húsafelli og þjónustumiðstöðvarinnar.

Þórður bendir á að mikið hafi verið fjallað um álag á ferðamannastöðum á Suðurlandi og þörfina á að dreifa álagi sem skapast af fjölgun erlendra ferðamanna. Húsafell og Vesturland í heild sinni sé ákjósanlegur valkostur sem mótvægi við Suðurland enda hafi svæðið allt til að bera sem erlendir ferðamenn sækist eftir á Íslandi.