Borgarráð samþykkti í dag tillögu um breytingu á deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir að reist veði hótel og bankaútibú í nýbyggingu á sameinaðri lóð Lækjargötu 12 og Vonarstrætis 4 og 4B. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Gömul verksmiðjubygging á baklóð Vonarstrætis 4B verður fjarlægð.

„Eftir að upphafleg tillaga að uppbyggingu á svæðinu var auglýst bárust nokkrar athugasemdir frá íbúum í nágrenninu.  Í breyttri tillögu er komið til móts við athugasemdirnar, m.a. með þeim hætti að hálf hæð er tekin af bakhúsi til að takmarka ekki birtu og útsýni íbúa við Kirkjuhvol. Dregið verður úr sjónrænum tengslum milli íbúa og hótelsins þar sem engir gluggar verða á jarðhæð hótels í átt að íbúðarhúsum,“ segir í fréttatilkynningu Reykjavíkurborgar.