Starfsmenn og viðskiptavinir Askar Capital fagna í dag stofnun bankans með hátíð í húsakynnum bankans. Starfsmenn bankans eru nú um 80 í fjórum löndum en markmið eigenda er að hann verði sterkur fjárfestingabanki á alþjóðavísu.

Aðaleigandi Askar Capital er fjármálasamstæðan Milestone, en stjórnendur bankans eiga einnig hluti í honum.

Í fréttatilkynnigu frá Askar Capital segir Dr. Tryggvi Þór Herbertsson, forstjóri, að bankinn leggja áherslu á tækifæri á erlendum vettvangi. Auk höfuðstöðvanna hér í Reykjavík rekur bankinn nú starfsstöðvar í Lúxemborg og Búkarest þar sem fasteignafjárfestingum er sinnt, auk þess sem í burðarliðnum eru starfsstöðvar í Hong Kong og Mumbai. Eftir að tilskilin leyfi hafa fengist er fyrirhugað að opna útibú í London sem mun að miklu leyti einbeita sér að eignastýringu. ?Við einbeitum okkur að því að finna óhefðbundna fjárfestingakosti og leitum sífellt leiða til að færa fjárfestum ný tækifæri á slóðum þar sem Íslendingar hafa ekki endilega fjárfest áður. Við horfum mikið til Asíu í þessum efnum. Sem dæmi um þetta má nefna að við erum nú þegar þátttakendur í mjög spennandi uppbyggingarverkefni á Indlandi.?

Verkefnið sem Tryggvi vísar til er unnið í samvinnu við einn þekktasta athafnamann Indverja, Nikhil Gandhi, sem hefur mikla reynslu af uppbyggingarverkefnum þar í landi. ?Við vorum að fjárfesta í fyrstu eigninni þar, Orange Lifestyle City, sem verður í Navi Mumbai; nýjasta hluta borgarinnar Mumbai. Þar mun rísa nýr borgarhluti sem er skipulagður og hannaður frá grunni með tilheyrandi afþreyingu og öryggisgæslu. Borgaryfirvöld eru að byggja brú frá miðborg Mumbai til þessa svæðis og í nágrenninu mun rísa alþjóðaflugvöllur. Þetta er bæði gríðarlega stórt og spennandi verkefni.?

Sérstaða Askar Capital felst í öflugum samstarfsaðilum á alþjóðavísu og í þeim fjórum meginstoðum sem starfsemin er byggð á: Fjármögnunar- og áhætturáðgjöf, eignastýringu, eignafjármögnun auk fasteignaráðgjöf sem bankinn hefur byggt upp. Sérstaklega er horft til þjónustu við fagfjárfesta. Eignastýring bankans mun einkum byggja á óhefðbundnum (e. alternative) fjármálavörum og fjárfestingum á nýmörkuðum. Sérstök áherslu er lögð á sjóði sem byggja t.a.m. á fasteignum í víðustu merkingu þess hugtaks, framtaksfjármagni, og samsettum fjármálagjörningum.

Hvað eignastýringu varðar mun Askar Capital ekki vera í mikilli samkeppni við íslensku bankana. Stefna bankans er fyrst og fremst að fjárfesta í sjóðum sem byggja á fasteignum, framtaksfjármagni og öðrum óskráðum fjárfestingum. Sem dæmi um verkefni á sviði eignastýringar eru stofnun 150 milljóna dollara framtaksfjármögnunarsjóðs. ?Þessi sjóður er samvinnuverkefni okkar og tveggja öflugra alþjóðlegra fjármálafyrirtækja og hefur þá sérstöðu að byggja verkefnaval sitt á upplýsingum frá einni þekktustu greiningarstofu heims á sviði framtaksfjármögnunar. Þá eru fleiri sjóðir í farvatninu og verða kynntir jafn óðum og þeir verða tilbúnir.? segir Tryggvi.

Dótturfélag Askar Capital, Avant, var minnsta bílalánafyrirtækið á Íslandi í byrjun ársins en hefur vaxið mikið á síðastliðnum mánuðum.