Skiptum er lokið á þrotabúi byggingafélagsins VBH ehf. Félagið var eitt af þrettán félögum Innova, félags sem var að stórum hluta í eigu verktakans Engilberts Runólfssonar.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu að VBH var úrskurðað gjaldþrota í nóvember árið 2010. Skiptum á þrotabúinu lauk 21. desember síðastliðinn. Samkvæmt úthlutunargerð fékkst 60,1 milljón króna upp í samþykktar veðkröfur og rúmar 1,4 milljónir króna upp í samþykktar almennar kröfur. Lýstar kröfur námu tæpum 1,1 milljarði króna. Þar af hljóðuðu veðkröfur upp á 292,4 milljónir króna og 797,8 milljónir króna í almennar kröfur.

Samkvæmt síðasta birta uppgjöri félagsins fyrir árið 2007 tapaði VBH 17,9 milljónum króna. Hrein eign félagsins nam 175,1 milljón króna og voru það tvær lóðir undir Úlfarsfelli. Bókfært verðmæti lóðanna nam 175 milljónum króna. Í uppgjörinu voru einu skuldirnar skammtímaskuldir upp á 85.265 milljónir króna.

Skuldaði 16 milljarða

Síðasta birta uppgjör Innova er sömuleiðis aðeins til fyrir rekstrarárið 2007. Í uppgjörinu eru eignir samstæðunnar bókfærðar á rúma 2,7 milljarða króna. Verk í vinnslu voru á sama tíma bókuð upp á tæpa 11,6 milljarða. Eigið fé samstæðunnar nam 326,7 milljónum króna og voru skuldir upp á 15,7 milljarða. Þar af námu skuldir við lánastofnanir tæpum 12 milljörðum króna.

Tekið er fram í uppgjörinu að skammtímahluti skulda við lánastofnanir voru lán frá viðskiptabönkum vegna verkframkvæmda. Um 10,5 milljarðar voru óverðtyrggð verkefnalán með allt að 21% vöxtum og um 305 milljónir í formi yfirdráttarlána og víxla. VBS Fjárfestingabanki vann náið með Innova og fjárfesti í verkefnum með félaginu s.s. í svokölluðu Laugadælalandi á Selfossi. Verkefni Innova voru að stórum hluta á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu.

Innova var úrskurðað um svipað leyti og VBH. Skiptum mun ekki vera lokið á þrotabúi félagsins enda mörg mál enn óuppgerð í tengslum við dótturfélög Innova.