Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

„Er þetta rétti tíminn til að setja fram kröfu um þvottavélarherbergi í öllum íbúðum?“ spurði Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, þegar hann spurði Svandísi Svavarsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi út í nýja og umfangsmikla byggingarreglugerð. Hann sagði áhrif reglugerðarinnar geta haft mikil áhrif á fasteignamarkaðinn. Hann nefndi sem dæmi að sá kostnaður sem fjallar um einangrun í blokkaríbúðum geta numið 700 til 800 þúsund krónum á hverja íbúð. Þetta ásamt öðru geti svo skilað því að byggingarkostnaður hækki um 10 til 20%.

„Hefur þessi reglurð verið yfirfarin?“ spurði Sigurður og lagði áherslu á að nú sé eftirspurn sé eftir ódýrum íbúðum til kaupa og leigu. Reglugerðin muni hins vegar hafa þveröfug áhrif, þ.e. bæði hækka fasteignaverð og leiguverð. Hann mælti með því að fresta gildistöku þess hluta reglugerðarinnar sem hleypi kostnaði upp.

„það skiptir máli að hér sé innstæða fyrir því sem sagt er. Menn eiga ekki að dengja fram slíku án þess að fótur sé fyrir því,“ sagði Svandís og varaði Sigurð við því að kasta fram prósentutölum sem þessum. Hún viðurkenndi hins vegar að hún hafi ekki séð útreikningana. Hún benti þó á að verulegt samráð hafi verið við hagsmunaaðila á meðan reglugerðin var í smíðum og lagði áherslu á að nú sé tími aðlögunar.