Vísitala byggingarkostnaðar er nú 4% lægri en raun ber vitni samkvæmt frétt á vef Hagstofu Íslands en þar segir að vegna kerfisvillu við innlestur launakostnaðargagna hafi vísitalan verið vanmetin síðan í mars 2010.

„Hagstofan vinnur nú  að endurútreikningi og verða niðurstöður birtar 20. apríl næstkomandi samhliða útgáfu vísitölu byggingarkostnaðar með gildistíma í maí 2011. Hækkun vegna áhrifa leiðréttingarinnar mun að fullu koma fram í vísitölugildi með gildistíma í maí 2011.

Hagstofan mun þá birta leiðrétta tímaröð vísitalna frá janúar 2010 til og með apríl 2011 til þess að auðvelda notendum endurútreikning uppgjörs vegna verðtryggðra samninga. Leiðrétt tímaröð mun enn fremur nýtast til greiningar á þróun byggingarkostnaðar á tímabilinu.

Hagstofan biður notendur afsökunar á óþægindum sem af þessu kunna að leiða og mun grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir að slík mistök endurtaki sig,“ segir á vef Hagstofunnar.