Undirliðir vísitölu byggingarkostnaðar breyttust mismikið á árinu samkvæmt nýrri samantekt Hagstofu Íslands. Miðað við það kostnaðarkerfi sem Rannsóknarstofa byggingariðnaðarins notast við hækkaði kostnaður við innréttingar mest á árinu, um rúm 16% á meðan kostnaður við yfirbyggingu lækkaði um rúmt prósent.

Um þetta er fjallað í Hagsjá Landsbankans en þar segir að sé kafað enn dýpra megi sjá að kostnaður við innihurðir hækkaði langmest, um tæp 30%, á meðan stigakostnaður í yfirbyggingu lækkaði um tæp 7%.   Samkvæmt tölum Hagstofunnar, sem birtar voru í morgun, hækkaði vísitala byggingarkostnaðar um 4,6% á árinu þegar miðað er við gildistíma. Vísitalan er mæld um miðjan hvern mánuð en gildir í mánuðinum á eftir, meðal annars til verðtryggingar leigu, ákvörðunar gatnagerðargjalda og við áætlanagerð og kostnaðarmat. Þannig er gildistími mælingar um miðjan nóvember í desember, svo dæmi sé tekið.

Sjá nánar í Hagsjá.