Miklar byggingaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og víðar á landinu eru vísbending um að byggingarkostnaður að viðbættu lóðarverði sé undir markaðsverði íbúðarhúsnæðis, segir greiningardeild Glitnis.

?Í fyrra var byrjað á 4.393 íbúðum á landinu öllu og hefur ekki verið byrjað á jafn mörgum íbúðum á einu ári frá því að mælingar hófust árið 1970. Til samanburðar var byrjað á 2.751 íbúð á árinu 2004 og að meðaltali 1.878 íbúðum á ári frá árinu 1970. Í byggingu á árinu 2005 voru 4.692 íbúðir og fullgerðar 3.106. Flest bendir til að árið í ár verði einnig stórt mælt í byggingu íbúða," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir að meðalverð á nýbyggðu sérbýli á höfuðborgarsvæðinu sé nú um 225 þúsund krónur á fermetra. Verðbilið virðist almennt frá 200 til 240 þúsund krónur á fermetrann, lægst í Hafnarfirði en hækkar eftir því sem nær dregur miðkjarna höfuðborgarsvæðisins.

Samkvæmt lauslegri könnun greiningardeildar er kostnaður við að byggja sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 200 þúsund krónur á fermetrann, án lóðaverðs.

?Hér er reiknað með því að verktaki taki að sér verkið að byggja húsið frá grunni og skili því fullbúnu. Ekki virðist því mikill munur á markaðsvirði íbúðarhúsnæðis og byggingarkostnaði um þessar mundir samkvæmt þessu. Þannig má ljóst vera að tiltölulega lítil lækkun á íbúðaverði eða væntingar um slíka lækkun, eins og nú er, gæti hæglega bremsað af þá miklu nýbyggingabylgju sem hefur verið í gangi að undanförnu," segir greiningardeildin.