Áætlað er að stofnkostnaður vegna nýbygginga meðferðarkjarna, rannsóknarhúss og sjúkrahótels við fyrirhugaða uppbyggingu Landspílta við Hringbraut verði 41,4 milljarðar króna. Að viðbættum kostnaði vegna bílastæðahúss, annarra húsa, gagnagerð og aðrar framkvæmdir nemur kostnaður við nýframkvæmdir um 47,1 milljarði króna.

Þetta kemur fram í svari velferðarráðherra við fyrirspurn Birnu Lárusdóttur  um fyrirhugaða uppbyggingu spítalans. Fram kemur að áfallinn kostnaður frá 2010 við samkeppni og forhönnun er 1,4 milljarðar króna.

Forhönnun nýrra bygginga Landspítala við Hringbraut liggja fyrir. Kostnaðaráætlun hefur verið uppfærð af SPITAL ráðgjafateyminu til samræmis við forhönnunina til verðlags í októbermánuði. Þá hefur kostnaðaráætlun verið rýnd af VSÓ-ráðgjöf og danska ráðgjafafyrirtækinu NIRÁS.

Kostnaður við endurbætur á eldra húsnæði var áætlaður um 11 milljarðar í apríl 2011 en er í dag talinn munu nema um 12,9 milljónum.

Þá kemur fram í svarinu að kostnaður við lausar innréttingar, húsgögn og tækjabúnað sé áætlaður um 12 milljarðar. „Þessi upphæð fer mikið eftir því hvert ástand tækjabúnaðar verður þegar flutt verður í nýbyggingarnar þar sem hluti búnaðar verður fluttur yfir í þær nýju. Gert er ráð fyrir að búnaðurinn þurfi ekki að koma allur á sama tíma og er miðað við að um 7 mia.kr. þurfi í upphafi og það sem eftir verður dreifist á allt að sjö ár.“