Enginn rekstur var í nafni félagsins Bygg á árinu 2012. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins. Bygg er í eigu þeirra Gunnars Þorlákssonar og Gylfa Ómars Héðinssonar. Í ágúst fyrir tæpu ári síðan var greint frá áformum BYGG um að reisa alls um 400 íbúðir í Lundi í Kópavogi og 150 íbúðir í Garðabæ.

Þeir Gunnar og Gylfi höfðu áður farið flatt en eignarhaldsfélag í eigu þeirra skuldaði 16 milljarða þegar það fór í þrot, ef marka má frétt DV um málið á sínum tíma. Félagið Bygg er í eigu félagsins Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. en það félag hefur ekki skilað ársreikningi síðan árið 2009. Greint var frá því í júlíbyrjun að Byggingarfélagið væri hluti af samningum um heildsöluleigu á tveimur hæðum í Norðurturni.