20,6% allra fyrirtækja í atvinnuflokknum byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð voru í vanskilum í byrjun þessa árs en sama hlutfall í byrjun árs 2012 var 29%. Þetta kemur fram í gögnum sem Creditinfo tók saman fyrir Við­skiptablaðið. Til samanburðar voru um 19,6% allra fyrirtækja í vanskilum í ársbyrjun 2012 en voru um 16,2% í byrjun þessa árs.

Bætt afkoma Að sögn Bjarna Más Gylfasonar, hagfræðings Samtaka iðnaðarins, helst þessi þróun í hendur við bætta afkomu byggingargeirans í heildina síðastliðin ár. Spurður að því hvort tölurnar vísi til þess að fyrirtæki í þessum geira séu betur rekin segir hann að það sé óhætt að fullyrða að svo sé.

„Sagan í þessari grein hefur verið brothætt og líftími fyrirtækja hefur ekki verið langur,“ segir hann. „Það eru augljós rök fyrir bættum rekstri fyrirtækja í byggingargeiranum. Nú er búið að setja inn í byggingareglugerð sérstakar kröfur um gæði reksturs. Það þýðir að ríkari kröfur eru gerðar til þeirra sem eru að byggja húsnæði. Það er því meiri agi og skipulag í rekstrinum. Þetta er eitthvað sem Samtök iðnaðarins hafa beitt sér sérstaklega fyrir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .