Hækkun á fasteignamarkaði náði hámarki á síðasta ári að sögn Regínu Bjarnadóttur, forstöðumanns greiningardeildar Arion banka. Hún segir að þótt enn séu töluverðar hækkanir í kortunum telji hún að þær verði ekki jafnmiklar á þessu ári eða því næsta og þær voru í fyrra.

Regína segir að hækkanir fasteignaverðs undanfarið bendi til þess að framboðið sé ekki nægjanlegt.

„Enda hefur lítið sem ekkert verið byggt af nýju íbúðarhúsnæði í nokkur ár. Svo virðist þó sem aukinn þróttur sé kominn í íbúðafjárfestingu eftir þessa miklu lægð undanfarin ár. Hár byggingarkostnaður hefur haldið aftur af framboði, en hækkun fasteignaverðs í fjölbýli virðist hafa ýtt við framkvæmdaaðilum. Þó er ekki víst að nýbygging fjölbýlishúsa sé orðin arðbær nema í vissum tilfellum og á þeim svæðum þar sem söluverð er hvað hæst. Byggingarkostnaður sérbýlis er enn vel umfram söluverð og virðist nokkuð í að hvati myndist til byggingar slíkra eigna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .