Helstirnið, hin alræmda plánetusláttuvél keisarans í Stjörnustríðsmyndunum, myndi kosta um 8,1 milljón milljarða dollara (andvirði um tæplega eins milljarðs milljarða íslenskra króna) ef hún væri byggð í raun og veru, sem er um þrettánþúsundföld ársframleiðsla heimsins alls.

Stúdentar við Leigh University í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum reiknuðu kostnaðinn út að gefnum ákveðnum forsendum. Vitað er að Helstirnið á að hafa verið 140 kílómetrar í þvermál og gáfu stúdentarnir sér að hún væri smíðuð úr stáli. Þá gáfu þeir sér að þéttleiki stáls í Helstirninu, þ.e. magn stáls á hvern fermetra, væri sambærilegt við það sem gerist og gengur í nútímaherskipum. Miðað við heimsmarkaðsverð á stáli fengu þeir svo út byggingarkostnað Helstirnisins.

Milljónaborg í geimnum

Svo mikið járn er til á Jörðinni að hægt væri að búa til um tvo milljarða Helstirna. Áður en lesendur æsast um of við tilhugsunina um slíkar framkvæmdir verður að minna á að miðað við afköst stáliðnaðarins tæki það um 833.000 ár að framleiða nógu mikið af stáli til að geta búið til slíkt ferlíki.

Þá má nefna það til skemmtunar að komið hefur fram í Stjörnustríðsbókum að í Helstirninu bjuggu og störfuðu alls tæplega 1,2 milljónir manna. Þar af var helmingurinn meðlimir í stormsveitum keisarans, en einhver hefur þurft að vinna í mötuneytum og við þrif, þannig að ekki hafa allir íbúar Helstirnisins þurft að vera búningaklæddir flokksmeðlimir í Svarthöfðaflokknum. Þá er einnig rétt að halda því til haga til að forðast misskilning að allir útreikningar sem hér er vitnað í taka aðeins til fyrra Helstirnisins, sem Logi Geimgengill sprengdi í fyrstu kvikmyndinni. Helstirnið 2.0, sem uppreisnarmenn sprengdu í þriðju myndinni, var umtalsvert stærra.