Byggingarkostnaður heldur áfram að hækka samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Vísitala byggingarkostnaðar, reiknuð eftir verðlagi um miðjan október, er 354,4 stig (júní 1987=100), hækkar um 0,60% frá fyrra mánuði. Vísitalan gildir fyrir nóvember.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala byggingarkostnaðar hækkað um 11,9%, segir í frétta frá Hagstofunni.

Greiningardeild KB banka vekur athygli á þessu í morgun og segir: "Kostnaður við nýbyggingu íbúða hefur því hækkað talsvert umfram verðlag á síðustu misserum en tólf mánaða verðbólga mælist nú 7,2% og nemur raunhækkun byggingakostnaðar á þessu tímabili því um 4,7%. Byggingakostnaður hefur einnig hækkað um 1% meira en fasteignaverð á síðustu 12 mánuðum."

Greiningardeildin bendir einnig að að ef litið sé að einstaka liði komi í ljós að "að á síðustu 12 mánuðum hafa vinnuliðir hækkað hvað mest eða um 13% á meðan efnisliðir hafa hækkað um 10,8%. Hækkun launakostnaðar skýrist einkum af nýgerðum kjarasamningum. Hafa ber í huga að fyrst og fremst er tekið mið af samningsbundnum launum í vísitölunni og því gæti verið um vanmat að ræða. "