Á fundi byggingarfulltrúans í Reykjavík, 9. október sl., var samþykkt byggingaleyfi til að byggja nýjan meðferðarkjarna við Hringbraut í samræmi við umsókn NLSH ohf. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Corpus3 hönnunarhópurinn sem samanstendur af níu innlendum og erlendum hönnunarfyrirtækjum eru aðalhönnuðir hússins.

Meðferðarkjarninn er stærsta byggingin í uppbyggingu Hringbrautarverkefnisins og gegnir lykilhlutverki í starfseminni. Innan hans munu fara fram sérhæfðar aðgerðir, rannsóknir og umönnun sjúklinga þar sem stuðst er við háþróaða tækni og sérhæfða þekkingu. Kröfur um aðbúnað eru sambærilegar og í nýjum sjúkrahúsum í nágrannalöndum okkar. Meðferðarkjarninn er hugsaður út frá starfsemi bráða- og háskólasjúkrahúss, með áherslu á einfalt og skýrt fyrirkomulag ásamt greiðum leiðum milli starfseininga. Meðferðarkjarninn tengist öðrum starfseiningum spítalans með tengigöngum og tengibrúm. Allar sjúkrastofur legudeilda eru einbýli með sér snyrtingu. Góð aðstaða verður fyrir aðstandendur á sjúkrastofum og legudeildum.

„Um er að ræða stóran áfanga í Hringbrautarverkefninu. Jarðvinna verksins er hafin og byggingaryfirvöld í Reykjavík, ásamt öðrum eftirlitsstofnunum, hafa unnið vel að yfirferð á hönnunargögnum Corpus3 hópsins. Samþykkt byggingaleyfisins á grunni laga nr. 160 / 2010 er lykilatriði. Fullnaðarhönnun húsanna í Landspítalaþorpinu er notendastudd og byggir á margra ára aðkomu starfsmanna Landspítala. Corpus3 nýtir sér ekki einungis innlenda þekkingu og sú bygging sem rís bráðlega við Hringbraut mun ekki verða neinn eftirbátur sambærilegra sjúkrahúsa í Evrópu. Það ber að þakka þeim fjölda fólks sem komið hefur að undirbúningi Hringbrautarverkefnisins,“ segir Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri NLSH ohf.