Byggingavöruverslun óx um 9,5% í júní frá fyrra ári en vöxtur í byggingavöruverslun fyrstu sex mánuði ársins nam 2,4% frá fyrra ári. Verðlag byggingavara lækkaði um 1,8% frá júní í fyrra og kemur þar til lækkun virðisaukaskatts og niðurfelling vörugjalda um áramótin. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Þar kemur einnig fram að verslun með skó og föt hafi dregist saman í mánuðinum þrátt fyrir að verðlag beggja vöruflokka hafi verið tæpu prósenti lægra en fyrir ári síðan. Þannig dróst verslun með skó saman um 13,9% frá fyrra ári að teknu tilliti til verðbreytinga en verslun með fatnað um 9,9%.

Verslun með húsgögn hefur vaxið nokkuð undanfarin misseri, jókst um 12,3% að raunvirði frá júní í fyrra og hefur vaxið um 9,3% fyrstu sex mánuði ársins 2015 samanborið við sama tímabil í fyrra. Verðlag húsgagna á fyrri hluta 2015 var jafnframt um 3,5% lægra en fyrri hluta 2014.

Áfengisverslun jókst milli ára

Áfengisverslun í júní jókst um 5% að raunvirði frá júní í fyrra en 3,3% ef fyrri helmingur ársins er borinn saman við sama tímabil í fyrra. Verðlag áfengis hefur lækkað um 0,7% frá sama tíma í fyrra en í þeirri tölu felst smávægileg hækkun þegar áhrif lækkunar VSK eru dregin frá.

Heildarvöxtur smásöluvísitölunnar, samkvæmt mælingu Rannsóknaseturs verslunarinnar, á fyrri helmingi ársins 2015 var 2,6% samanborið við sama tímabili í fyrra á föstu verðlagi. Samkvæmt þessu er vöxturinn í smásöluverslun nokkuð lægri en spár um vöxt í einkaneyslu, sem Hagstofan hefur áætlað að verði 3,8% árið 2015 sem og útgefnar tölur um einkaneyslu á 1. ársfjórðungi, sem jókst um 3,9% frá 1. ársfjórðungi 2014. Þó ber að taka fram að einkaneysla nær jafnt til þjónustu- og vöruviðskipta en smásöluvísitalan eingöngu til vörusölu.