Nú er búið að steypa upp hið nýja fangelsi á Akureyri og byrjað að vinna við innréttingar, en stefnt er að því að ljúka við fangelsishluta byggingarinnar ekki síður en 1. mars næst komandi. Framkvæmdir hófust í apríl 2007, en auk endurbóta og nýrrar viðbyggingar við núverandi fangelsi verða gerðar endurbætur á aðstöðu lögreglunnar í millibyggingu.

Samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslu ríkisins verða fangaklefar í nýju byggingunni stærri en áður hefur verið. Alls verða 10 fangaklefar fyrir langtímavistun fanga á 1. hæð og 8 klefar fyrir skammtímavistun í kjallara. Einn þeirra verður einangrunarklefi. Þá er nýr fangagarður hluti verksins og verður hann mun bjartari en fyrri útivistarsvæði fanga. Aðstaða mun verða fyrir létta vinnu fanga svo og námsaðstaða, matsalur, aðstaða fyrir líkamsrækt, heimsóknarherbergi og vinnuherbergi fyrir sérfræðinga.

Heildarkostnaður áætlaður 228 milljónir

Heildarkostnaðaráætlun Framkvæmdasýslu ríkisins haustið 2006 hljóðaði upp á 227,9 milljónir króna. Innifalinn er kostnaður við ráðgjöf, umsjón og eftirlit, framkvæmd, opinber gjöld og rekstur á framkvæmdatíma svo og búnaður og listskreytingar.

Framkvæmdakostnaður sundurliðast þannig að greiðsla vegna samningsverks eru áætlaðar 170,6 milljónir króna, að meðtöldum 3,8 milljónum vegna áætlaðra verðlagsbreytinga, aukaverk og magnbreytingar 7,9 milljónir króna, samtals 177,6 milljónir króna.