Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um framkvæmdir við Tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð við Austurhöfnina í Reykjavík. Menntamálaráðuneytið og Reykjavíkurborg eru sammála um mikilvægi þess að framkvæmdum við húsið verði fram haldið.

Samkomulagið miðast við að Austurhöfn-TR yfirtaki verkefnið. Að því er fram kom í tilkynningu felur ákvörðunin ekki í sér aukin framlög frá því sem þegar var ákveðið 2004. Menntamálaráðuneytið og Reykjavíkurborg skuldbinda sig til þess að tryggja að uppbygging á öðrum reitum við tónlistar- og ráðstefnuhúsið verði flýtt og allra leiða verði leitað til þess að tryggja blómlegt atvinnulíf í næsta nágrenni. Er það talið mikilvægt til að rekstarforsendur Tónlistarhússins fái staðist.

Miðað er við að kostnaður við að ljúka framkvæmdum verði 13,3 milljarðar króna auk vaxta á byggingartíma. Stefnt er að verklokum í janúar 2011.

Næstu mánuðir verða nýttir til að uppfæra verkáætlanir, endurmeta og kostnaðargreina hönnun og útfærslur tónlistar- og ráðstefnuhússins og leita hagkvæmari leiða en gert var ráð fyrir í upphafi.

Megin rökin fyrir tillögu um að ljúka verkinu eru að verkefnið skapar allt að 600 störf. Þá hefði það slæmar afleiðingar fyrir ýmsa verktaka og starfsmenn að hætta við verkefnið.

Fjármögnun framkvæmdanna verður með þeim hætti að NBI (Landsbankinn) útvegi lán til áframhaldandi framkvæmda. Það verði gert með sambankaláni á langtímafjármögnun út samningstímann. Lánin verði með veði í framlagi ríkis og borgar. Fjármögnun kaupanna á Portusi miðast annars við að GLÍ og NBI láni fyrir kaupunum til 7 ára.