Hrafn Magnússon Landssamtök Lífeyrissjóða
Hrafn Magnússon Landssamtök Lífeyrissjóða
© BIG (VB MYND/BIG)
Tillaga OECD er í beinni andstöðu við skyldutryggingakerfi lífeyrisréttinda og jafnframt byggð á misskilningi,“ segir Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, um tillögur Efnahagsframfarastofnunarinnar, OECD, sem í samantekt á nýlegri skýrslu sinni um íslenskt efnahagslíf leggur til að lögum um lífeyrissjóði verði breytt. Breytingarnar verði á þann veg að sjóðunum verði bannað að veita fasteignalán í þeirri mynd sem nú er, þ.e. að sjóðfélögum séu veitt lán með veði í þeirri fasteign sem kaupa skal. Þess í stað vill OECD að veð sé tekið í framtíðarréttindum sjóðsfélagans. Standi lánþeginn ekki í skilum myndi hann því missa lífeyrisréttindi sín. Til þess að draga úr hættunni á því að verðmæti veðsins verði lægra en lánið leggur stofnunin jafnframt til að hámarkslánsupphæð verði takmörkuð við eitthvert hlutfall af þeim réttindum sem viðkomandi sjóðsfélagi hefur áunnið sér og mun vinna sér inn þegar fram líða stundir.

„Að leyfa sjóðfélögum að „taka lán hjá sjálfum sér“ þegar þess gerist þörf mun hvetja til sparnaðar í lífeyrissjóðum og sömuleiðis draga verulega úr hættunni á því að lífeyrissjóðir þurfi að afskrifa lán,“ segir í skýrslunni.

Ástæða þess að OECD leggur til að áðurnefnd leið sé farin er sú að „endurskipulagning skulda hefur reynst sérstaklega erfið þegar veðlán lífeyrissjóða eru annars vegar þar sem stjórnir þeirra hafa ekki heimild til þess að samþykkja aðgerðir sem gætu skaðað hagsmuni sjóðfélaga,“ eins og segir í skýrslunni.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.