Hafnarfjarðarbær og Alþýðusamband Íslands hafa undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu 150 leiguíbúða í Hafnarfiði. Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri í Hafnarfirði og Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um byggingu 150 leiguíbúða í Hafnarfirði á næstu fjórum árum til að svara enn betur þörf á leigumarkaði.

ASÍ vinnur þessa dagana að stofnun og fjármögnun húsnæðissjálfseignarstofnunar sem kemur til með að starfa á landsvísu. Hafnarfjarðarbær hefur þegar gefið félaginu, sem mun starfa í umboði ASÍ, vilyrði fyrir úthlutun á lóðum fyrir uppbyggingu 150 almennra leiguíbúða.

Markmiðið er að afhenda lóðir fyrir 32 íbúðir á yfirstandandi ári, 28 íbúðir árið 2017, 45 íbúðir árið 2018 og 45 íbúðir árið 2019.